Vitlaust gefið

Fyrst maður er komin aftur á bloggslóðir þá er eins gott að hafa eitthvað að segja á næstunni. 

  

Ég var að spá í eitt um daginn þegar ég frétti af því að leggja ætti fréttastofu Stöðvar 2 niður og allavega hætta fréttaútsendingum á 18.30 fréttum. Einhver sagði að það yrði tilkynnt um mánaðarmótin en sjáum bara til með það.  Ekki ætla ég að tala um að ég sakni þeirrar fréttastofu nokkuð en allavega verður einni fréttstofu minna að giska í fréttir fyrir mér.  Mér sundlaði við kostnaðinum að reka fréttastofuna, heilar 700 til 800 miljónir og 300 miljóna tap, man ekki upp á hár hvort talað var um á ári eða á mánuði. En mér finnst kostnaðurinn stjarnfræðilegur sér í lagi þegar fréttastofan hefur sendir út með skertu upplýsingaraðgengi þ.e. engin texti og settið sem segir fréttirnar er á svimandi háum launum.  Þarna er greinilega vitlaust gefið.  Miklu frekar ætti að auka möguleikann á að fólk nái að skilja fréttirnar heldur en að hækka launin sem þegar eru há fyrir.

 

Ég er á leið til Ameríku eftir pínuspons nokkra daga.  Ég var að rifja upp fyrir mér síðustu Ameríkuferð sem ég fór í – og fann í þeirri upprifjun eitt til að hlakka til.  Nefnilega hvað upplýsingarflæðið í sjónvarpsfjölmiðlum þar er óskert.  Þar fæ ég að horfa á beinar útsendingar með texta, allar auglýsingar þar og fæ að vita upp á hár af hverju ég ætti frekar að kaupa þessar verkjatöflur fremur en aðrar svo eitthvað sé nefnt að daglegu lífi Ameríkumannsins. En þó ætla ég ekki að sitja á rassinum dagsdaglega og horfa á imbann í Ameríku.  En það verður allt annað upplýsingalíf, sé fyrir mér að horfa á morgunfréttirnar með texta, pælið í því það er ekkert smá fyrir fréttaþyrsta konu eins og mig sem býr við skert upplýsingaraðgengi og ágiskun hvern fjandann sé verið að tala um í hinni og þessari frétt á hverjum tíma.  Get ekki annað en svolítið hlakkað til næsta París Hilton skandall – allt í beinni og með texta.

 

Satt best að segja svo haft sé eftir táknmáli götunnar hér á landi þá hafa heyrnarlausir íslendingar oft haft á orði að þeim finnst þeir ekki vera “útlendingar” í útlöndum þar sem textun og óheft upplýsingaraðgengi í sjónvarpsfjölmiðlum eins og í Ameríku er talin sjálfsagður hlutur. Þeim finnst þeir vera “heima” í útlöndum.  Nokkuð sorgleg staðreynd fyrir fallega landið Ísland sem er dásamað fyrir besta velferðarkerfi heims.

 

Og svo annað gott við Ameríkuferðina og sjónvarpsáhorf mitt með texta er nefnilega það að þá læri ég enskuna enn frekar og kem heim betur skiljandi á enskuna sem reyndar átti að kenna mér samkvæmt grunnskólaskyldunni en fór forgörðum af því stjórnvöld studdu ranga stefnu á grunnskólaaldri mínum og margra annarra jafnaldra minna. Já, sem sagt var vitlaust gefið í grunnskólamenntun minni.

 

 

Talandi um að ég læri enskuna af textanum í sjónvarpinu, þá er það þannig að aðflutt fólk þ.e fólk af erlendu bergi brotið lærir íslenskuna líka af því að texti fylgi með innlendum sjónvarpsefni.  Vorum við íslendingar ekki að tala um að erlent fólk sem býr hérna verði að læra íslenskuna og aðlagast íslensku samfélagi?  Því ekki að hafa texta með innlendu sjónvarsefni sem myndi hjálpa til við íslenskulærdóminn.  Það vissu Svíar allavega þegar þeir hófu textun á sænsku efni í sínum sjónvarpstöðvum árið 1976 minnir mig og heyrnarlausir Svíar nutu góðs af því.  Þarna er greinilega enn vitlaust gefið hjá íslenskum stjórnvöldum að sinna því ekki að setja textun á innlent sjónvarpsefni í lög.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband